Einstöku byggplönturnar sem hýsa vaxtarþættina okkar eru ræktaðar í vistvæna hátæknigróðurhúsinu okkar á Íslandi. Gróðurhúsið er staðsett á hraunbreiðum Reykjanesskagans í grennd við Grindavík. UNESCO útnefndi svæðið sem svokallaðan „Global Geopark“, þ.e. jarðminjasvæði sem er jarðfræðilega mikilvægt á heimsvísu.
Í gróðurhúsinu getum við ræktað allt að 130.000 byggplöntur í vikri, hraðstorknaðri gosmöl úr eldstöðinni Heklu. Plönturnar verða fullvaxta á um það bil 30 dögum. Með því að nota vikur í stað moldar lágmörkum við möguleikann á hvers kyns mengun. Í gróðurhúsinu er svokallað vatnsræktarkerfi (e. hydroponic system). Plönturnar eru vökvaðar með hreinu íslensku vatni – tæru grunnvatni sem hefur síast í gegnum jarðlögin á leið sinni til yfirborðs – auk nauðsynlegra næringarefna.