Hverjir eru helstu kostirnir að þínu mati?
- Aukin jákvæð orka
- Að losna við streitu eða neikvæðar hugsanir og finna hvatningu
- Að komast í og nýta skapandi flæði
- Að auka sjálfstraust og persónulega valdeflingu
- Betri tenging og samskipti við fólk
- Aukin einbeiting
- Að finna leiðir til að leysa ákveðin vandamál
- Meiri samúð, sjálfsást og sjálfsumhyggja
- Að verða sveigjanlegri í núinu, framhleypnari og óþvingaðri
- Að vera meira til staðar í núinu – sem yfirfærist einnig á líkamann!
Hvað gerir hugleiðsla fyrir huga og líkama?
Hún róar hugann gagnvart fjölda truflana sem við verðum fyrir yfir daginn. Ef maður temur hugann verður auðveldara að hugsa um líkamann og sýna honum meiri ástúð. En það er einnig líkamlegur þáttur í hugleiðslu; þegar maður hugleiðir verður breyting á heilanum, sem er jú hluti af líkamanum, ekki satt? Það hefur verið vísindalega sannað að þeir hlutar heilans stækka sem hafa með hluttekningu að gera og tengja þig við sjálfið og aðra. Svo hugleiðsla gerir þér kleift að rækta og bókstaflega stækka heilann – sem er ótrúlegt.
Svo er það húðin, það er nokkuð sem hefur heillað mig. Andlitið endurspeglar innra ástand. Það sést þegar þú hefur minni áhyggjur og býrð yfir meiri gleði. Það þarf fleiri vöðva og meiri orku til að yggla sig en að brosa, sem þýðir að bros er eðlilegra og afslappaðra ástand. Hugleiðsla er aðferð til að koma þér aftur í eðlilegt ástand og húðin endurspeglar það. Það er magnað að sjá raunverulegar breytingar á andliti fólks, næstum eins og það hafi minni áhyggjuhrukkur – þetta er eins konar andlitslyfting!
Hefurðu tekið eftir auknum áhuga á hugleiðslu?
Það hafa orðið stórkostlegar breytingar því hugleiðsla er orðin mjög vinsæl og sífellt fleiri átta sig á nauðsyn hennar. Það er svo mikið um streitu og kulnun. Þrátt fyrir aukinn áhuga er þó enn mikil andstaða gegn henni því fólk telur að hugleiðsla sé erfið. Þess vegna stofnuðum við Flow, til að gera hana auðveldari.
Hvaða ávinning hafa fyrirtæki af hugleiðslu fyrir starfsfólk?
Hugleiðsla getur hjálpað fólki að sofa betur, öðlast jákvæðara hugarfar, ná markmiðum sínum, auka framleiðni, bæta líðan og auka orku. Fyrirtæki hafa því hag af því að veita starfsfólki rými og verkfæri til þess að hugleiða, því það fækkar veikindadögum og eykur framleiðni. Það er bara staðreynd. Þegar fyrirtæki veita starfsfólki sínu aðgang að verkfærum til að bæta líðan eru kostirnir óumdeildir. Það að styðja hugleiðslu í vinnunni er frábær leið til að koma í veg fyrir kulnun og auka andlega vellíðan. Það sýnir starfsfólkinu vilja og umhyggju, að það séu verkfæri í boði og að fyrirtæki hafi fyrir því að greiða aðgang að þeim. Þetta mun skipta næstu kynslóð miklu máli því hún er miklu meðvitaðri um áhrif streitu. Z-kynslóðin mun eflaust krefjast þessa í vinnunni.