Hvers vegna er alþjóðlegur dagur vatnsins haldinn hátíðlegur?
22. mars ár hvert er alþjóðlegur dagur vatnsins haldinn hátíðlegur um allan heim. Markmiðið er að auka vitund um þann vanda sem steðjar að vatnsauðlindum, einkum hreinlæti og aðgengi en einnig hvað varðar ábyrga og sjálfbæra stjórnun og umsjón. Enn eru milljónir manna um allan heim sem ekki njóta þeirra sjálfsögðu mannréttinda að hafa aðgang að hreinu vatni. Þörfin er því afar brýn og teygir anga sína í öll helstu vandamál sem mannkynið stendur frammi fyrir, allt frá hungri og heilsumálum til jafnréttis og menntunarmála.